Pardew bjartsýnn á að geta notað Hermann

Hermann Hreiðarsson gæti spilað með gegn Sheffield United.
Hermann Hreiðarsson gæti spilað með gegn Sheffield United. AP

Alan Pardew, knattspyrnustjóri Charlton Athletic, sagði við Sky Sports í dag að hann væri bjartsýnn á að geta notað varnarjaxlinn Hermann Hreiðarsson í fallslagnum þýðingarmikla gegn Sheffield United sem fram fer á The Valley í London á laugardaginn. Hermann hefur glímt við meiðsli í hné undanfarnar vikur og missti af síðasta leik liðsins í úrvalsdeildinni.

„Við teljum að við getum haft alla okkar menn leikfæra á laugardaginn. Það er smá vafi með Hermann Hreiðarsson, Darren Bent og Jerome Thomas en við erum á því að allir þrír verði með í leiknum," sagði Pardew.

Þetta er hálfgerður úrslitaleikur en Charlton er í fallsæti með 32 stig og Sheffield United er næsta lið fyrir ofan með 34 stig. „Framhaldið hjá okkur veltur á leik á heimavelli og við höfum verið góðir á heimavelli í vetur. Við munum hafa það sterklega í huga fyrir leikinn," sagði Pardew en Charlton tapaði naumlega fyrir Everton um síðustu helgi, 2:1, eftir að hafa leikið sex leiki í röð án taps.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert