Austurríkski framherjinn Besian Idrizaj skoraði þrennu fyrir Liverpool í dag þegar liðið sigraði Wrexham, 3:2, í fyrsta æfingaleik sínum á undirbúningstímabilinu. Idrizaj, sem er 19 ára gamall, skoraði mörkin þrjú á 22 mínútna kafla, öll eftir sendingar frá Jermaine Pennant.
Idrizaj gekk til liðs við Liverpool frá austurríska liðinu Linz ASK fyrir tveimur árum en hann var í láni hjá Ipswich síðari hlutann á síðustu leiktíð.
Rafael Benítez knattspyrnustjóri Liverpool gaf flestum stórstjörnum sínum frí en af þeim leikmönnum sem léku töluvert með liðinu á síðustu leiktíð tóku Steve Finnan, Jermaine Pennant, Mohammed Sissoko og Arbeloa þátt í leiknum.
Ungversku táningarnir, Andras Simon og Krisztian Nemeth, sem Liverpool festi kaup í sumar fengu að spreyta sig í seinni hálfleik og léku þar með sinn fyrsta leik í búningi Liverpool.