„Jú, jú, við erum alveg sáttir með eitt stig úr fyrsta leiknum. Það er mjög ásættanlegt að ná einu stigi þarna upp frá í fyrsta leik," sagði Brynjar Björn Gunnarsson, leikmaður Reading sem gerði markalaust jafntefli í sínum fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni í gær. Mótherjarnir voru Englandsmeistarar Manchester United þannig að Ívar Ingimarsson, Brynjar Björn og félagar þeirra hjá Reading geta vel við unað enda léku þeir einum færri síðustu 20 mínúturnar.
„Við lögðum upp með að verjast vel og það gekk upp að mestu leyti. Þeir náðu ekki að skora og að því leytinu til náðum við markmiði okkar," sagði Brynjar Björn en bæði hann og Ívar léku allan leikinn með Reading.
Sjá nánar viðtal við Brynjar Björn í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.