Edwin van der Sar, markvörður Manchester United, kveðst tilbúinn í slaginn gegn Blackburn Rovers í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á sunnudaginn, enda þótt hann hafi farið meiddur af velli í hálfleik gegn Dynamo Kiev í Meistaradeild Evrópu í gærkvöld.
„Ég var meiddur í tá fyrir leikinn og það tók sig upp. Sársaukinn var mikill en ég fór fyrst og fremst af velli vegna þess að það var óþarfi að taka einhverja áhættu. Ég verð með á sunnudaginn," sagði Hollendingurinn reyndi við enska fjölmiðla.
Manchester United vann leikinn auðveldlega, 4:0, þó nokkrir lykilmenn væru hvíldir og tryggði sér endanlega sæti í 16-liða úrslitum keppninnar. „Kiev var líka með nokkra sterka menn á bekknum og setti þá ekki inná fyrr en seint í leiknum. En við gerðum ýmsar breytingar og þetta var auðveldur leikur fyrir okkur. Aðalmálið er að við erum komnir áfram," sagði van der Sar.