Það verður sannakallaður stórleikur á Emirates Stadium í dag en klukkan 12.45 verður flautað til leiks í grannaslag Arsenal og Tottenham í fyrsta leiksins í ensku úrvalsdeildinni. Arsenal hefur haft gott tak á Tottenham og lærisveinar Arsene Wengers eru sigurstranlegri í dag en Tottenham hefur verið að sækja í sig veðrið og hefur unnið tvo góða útisigra í röð, gegn Portsmouth og Manchester City.
Tölfræðin er ekki á bandi Tottenham þegar litið er á viðureignirnar gegn Arsenal. Tottenham hefur ekki lagt Arsenal að velli í rúm 8 ár eða frá 7. nóvember árið 1999. Þá skoruðu Steffen Iversen og Tim Sherwood í 2:1-sigri Tottenham. Frá þeim tíma hafa fjórir knattspyrnustjórar stýrt félaginu og þeir náðu ekki að brjóta ísinn því Arsenal hefur ekki tapað gegn Tottenham í síðustu 19 leikjum í deild – og bikar.
Juande Ramos knattspyrnustjóri Tottenham er að stýra liðinu í fyrsta sinn í þessum grannaslag og vonast stuðningsmenn liðsins til þess að hann nái betri árangri en forverar hans í starfi; David Pleat, Glenn Hoddle, Jacques Santini og Martin Jol. Ramos hefur upplifað ýmislegt í starfi sínu sem þjálfari og í febrúar á þessu ári kastaði stuðningsmaður Real Betis flösku í höfuð Ramos í leik grannaliðanna Sevilla og Real Betis.
„Ég er ýmsu vanur og ég læt fátt koma mér úr jafnvægi. Eflaust mun ég fá blótsyrði og ljótar kveðjur frá stuðningsmönnum Arsenal. Það mun ekki hafa áhrif á mig þar sem ég skil ekki það sem sagt er við mig á ensku,“ sagði Ramos í gær en hann á enn eftir að ná tökum á enskunni.
Robbie Keane verður á ný með Tottenham, fyrirliðinn hefur tekið út þriggja leikja bann en Didier Zokora verður ekki með í næstu þremur leikjum.
Hjá Arsenal er Theo Walgott sá eini sem er tæpur en Emmanuel Eboe hefur jafnað sig af meiðslum sem hann hlaut í leiknum gegn Chelsea um síðustu helgi.