Risaslagur af bestu gerð á Old Trafford

Carlos Tevez verður í eldlínunni með Manchester United gegn Arsenal …
Carlos Tevez verður í eldlínunni með Manchester United gegn Arsenal í dag. Reuters

Það verður sannkallaður risaslagur á Old Trafford í Manchester síðdegis í dag þegar Englandsmeistararar Manchester United fá Arsenal í heimsókn í 16 liða úrslitum ensku bikarkeppninnar sem er á dagskrá um helgina.

Eins og jafnan áður er reiknað með hörðum slag tveggja efstu liðanna í ensku úrvalsdeildinni sem eru þau sigursælustu í bikarkeppninni en Manchester United státar af 11 bikarmeistaratitlinum og Arsenal 10. United hefur 18 sinnum komist í úrslitaleikinn en Arsenal 17 sinnum.

Sir Alex Ferguson stjórnar liði Manchester United í 100. bikarleiknum í dag og í 35. sinn leiða Ferguson og Arsene Wenger saman hesta í öllum keppnum. Wenger stendur betur að vígi í einvígi stjóranna – hefur unnið 13 en Ferguson 11. Ferguson hefur hins vinninginn hvaða bikartitlana varðar. Skotinn hefur fimm sinnum stýrt United-liðinu til sigurs í bikarkeppninni (1990, 1994, 1996, 1999, 2004) en Wenger fjórum sinnum (1998, 2002, 2003 og 2005). Þetta verður 12. rimma liðanna í bikarnum en síðast áttust þau við í úrslitaleik 2005 þar sem Arsenal hafði betur í vítakeppni, 5:4.

Manchester United endurheimtir Patrice Evra, Louis Saha og Wayne Rooney en í öllum fjórum tapleikjum United á tímabilinu hefur Rooney verið fjarri góðu gamni. Þar með getur Sir Alex stillt upp sínu sterkasta liði að því undanskildu að Gary Neville er enn á sjúkralistanum.

Arsene Wenger á í nokkrum vandræðum með að manna sína sveit. Bakvörðurinnn snjalli Bagary Sagna verður ekki með af persónulegum ásstæðum þeir Gael Clichy, Philippe Senderos, Adebayor og Flamini eru allir tæpir vegna meiðsla en fara með liðinu til Manchester. Líklegt að Kolo Toure og Emmanuel Eboe komi inn í liðið en þeir hafa verið fjarverandi síðustu vikur vegna Afríkukeppninnar.

Arsenal sigurstranglegra

Frank Stapleton, fyrrum framherji Arsenal og Manchester United, lítur svo á að Arsenal sé sigurstranglegra liðið í dag jafnvel þótt leikið sé á Old Trafford.

,,Ef ég tek mið af síðustu leikjum liðanna þá met ég svo að Arsenal sé heldur sigurstranglegra. Arsenal hefur spilað sérlega vel á meðan United hefur hikstað. Liðið náði sér ekki á strik á móti Tottenham og engan veginn gegn Manchester City. Ég á hins vegar von á að leikmenn United mæti afar grimmir til leiks gegn sínum aðalkeppinautum. Ef ekki nú þá aldrei,“ segir Stapleton.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka