Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal sagði eftir jafntefli sinna manna gegn Aston Villa í dag að stigið gæti reynst liðinu dýrmætt í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn. Það stefndi allt í ósigur Arsenal á Emirates en þegar 10 sekúndur voru eftir af uppbótartíma jafnaði Nicklas Bendtner, ,,Big Ben", fyrir heimamenn.
„Stigið sem við fengum gæti haft úrslitaþýðingu. Ef við hefðum tapað liti dæmið öðruvísi út en við erum enn í toppsætinu. Það fara öll lið í gegnum erfiða kafla en hvert stig er mikilvægt. Ég veit að við erum ekki það lið sem er sigurstranglegast hjá fólki lengur en við erum með eins stigs forskot og höfum aðeins tapað einum leik í deildinni á tímabilinu,“ sagði Wenger.
Martin O'Neill knattspyrnustjóri Aston Villa var að vonum svekktur enda lið hans hársbreidd frá sigri.
„Það er erfitt að lýsa vonbrigðunum. Við lékum svo vel og áttum sigur skilinn þar sem liðið sýndi frábæra spilamennsku. Við erum færir um að sækja gegn hvaða liði sem er og erum færir um að skora gegn hvaða liði sem er," sagði O'Neill.