Carlos Queiroz, aðstoðarstjóri Manchester United, hefur beðist afsökunar á því að hafa blandað Martin Taylor, varnarmanni Birmingham, inní umræðu um gróf brot sem hann taldi að hafðu átt sér stað í leik United gegn Hermanni Hreiðarssyni og félögum í Portsmouth á laugardaginn.
Taylor er sem kunnugt er í leikbanni um þessar mundir eftir að hafa brotið illa á Eduardo, leikmanni Arsenal, og fótbrotið hann í leik liðanna fyrir skömmu.
Queiroz og Alex Ferguson voru mjög heitir að leik loknum þar sem þeir töldu Cristiano Ronaldo hafa verið sérstaklega grátt leikinn af leikmönnum Portsmouth.
„Þetta er ástæðan fyrir því að Taylorar ná að þrífast í fótboltanum á meðan bestu leikmönnunum er sparkað útaf vellinum. Þetta gengur ekki lengur," sagði Queiroz við fréttamenn skömmu eftir leik.
Queiroz sendi síðan frá sér yfirlýsingu í dag. „Ég er afar leiður yfir því að ummæli mín eftir leikinn, sögð í hita augnabliksins að honum loknum, skyldu vera svona óheppilega orðuð. Allir hjá Manchester United vita að Martin Taylor er ekki óheiðarlegur leikmaður. Það sem ég ætlaði mér að segja var að vegna þess hve fótboltinn er orðinn hraður, verðum við að refsa harðar fyrir illa tímasettar tæklingar. Ég biðst afsökunar á því ef ég hef komið illa við einhvern með ummælum mínum," sagði í yfirlýsingu Portúgalans.