Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United býst við æsispennandi keppni á milli Manchester United, Arsenal og Chelsea um enska meistaratitilinn og að úrslitin ráðist jafnvel ekki fyrr en í lokaumferðinni.
„Spennan er að magnast og þetta verður æsispennandi lokabarátta,“ segir Ferguson en Manchester United og Arsenal hafa bæði 67 stig og Chelsea 64 en United og Chelsea eiga leik til góða á Arsenal. Manchester United tekur á móti Bolton á miðvikudaginn og Chelsea sækir Tottenham heim. „Vonandi vinnum við Bolton og náum einir efsta sætinu og höldum því til loka,“ segir Ferguson.
Við höfum tapað mörgum stigum í síðustu leikjum og það eru mikil vonbrigði,“ segir Arsene Wenger, stjóri Arsenal, en hans menn gerðu fjórða jafnteflið í röð þegar það mætti Middlesbrough í gær.
„Næst mætum við Chelsea og það verður áhugaverður leikur. Það verður svo að koma í ljós í lok tímabilsins hvaða áhrif þessi síðustu úrslit hafa á okkur,“ segir Wenger.
Avram Grant knattspyrnustjóri Chelsea neitar að gefast upp og hann stefnir að því að landa titlinum. Chelsea á eftir að taka á móti bæði Arsenal og Manchester United á Stamford Bridge en þar hefur Chelsea ekki tapað deildarleik í fjögur ár.
„Ef það einhver í liðinu sem hefur ekki trú á að við getum staðið uppi sem sigurvegari þá ætti hann ekki að vera í fótbolta. Ég er mjög jákvæður og bjartsýnn maður að eðlisfari og hef fulla trú á mínu liði,“ segir Grant.