Fowler samdi við Blackburn Rovers

Robbie Fowler lék með Cardiff síðasta vetur.
Robbie Fowler lék með Cardiff síðasta vetur. AP

Robbie Fowler, fyrrum markahrókur Liverpoolmanna, samdi í dag við enska úrvalsdeildarliðið Blackburn Rovers til næstu þriggja mánaða og fær greitt í samræmi við hversu mikið hann spilar með liðinu.

Fowler lék með Cardiff síðasta vetur en hafnaði nýjum samningi þar. Etir að Paul Ince tók við sem knattspyrnustjóri Blackburn í júní hefur Fowler æft með liðinu. Vonast er til að hægt verði að ganga frá öllum formsatriðum þannig að hann komi til greina í leikmannahópinn fyrir leik Blackburn gegn Arsenal um næstu helgi.

Fowler, sem er 33 ára gamall, er fjórði markahæsti leikmaðurinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar með 162 mörk, þar af 128 fyrir Liverpool, 14 fyrir Leeds og 20 fyrir Manchester City. Þá gerði hann 7 mörk í 26 leikjum með enska landsliðinu en hefur ekki spilað með því frá 2002.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka