Terry Venables, fyrrum landsliðsþjálfari Englands, er orðaður við stöðu knattspyrnustjóra hjá Newcastle en BBC kveðst í dag hafa öruggar heimildir fyrir því að félagið hafi verið í sambandi við hann þó það hafi ekki enn gert honum formlegt tilboð.
Kevin Keegan hætti störfum hjá Newcastle í byrjun þessa mánaðar þar sem hann var ósáttur við gang mála hjá félaginu og Chris Hughton hefur stýrt liðinu frá þeim tíma.
Venables, sem er 64 ára, hefur verið atvinnulaus í tæpt ár en honum var sagt upp sem aðstoðarþjálfara enska landsliðsins í nóvember á síðasta ári. Hann var þá Steve McClaren til halds og trausts en Venables stýrði landsliðinu sjálfur á árunum 1994 til 1996.
Hann og Dennis Wise, yfirmaður knattspyrnumála hjá Newcastle og fyrrum landsliðsmaður Englands, eru sagðir góðir vinir.
Venables sló í gegn á níunda áratug síðustu aldar þegar hann stýrði fyrst QPR og Crystal Palace og tók síðan við stórliði Barcelona. Þar var honum sagt upp störfum árið 1987 en þá hafði hann unnið spænska meistaratitilinn og komist í úrslitaleik Evrópukeppni meistaraliða með félaginu. Eftir það stýrði hann Tottenham í tvö ár og hefur síðan fengist við ýmislegt, var m.a. landsliðsþjálfari Ástrala eftir að hann hætti með enska landsliðið, aðstoðaði Bryan Robson hjá Middlesbrough og var um skeið knattspyrnustjóri Leeds.