Hamrammur og hæfinn

Amr Zaki fagnar marki með Wigan.
Amr Zaki fagnar marki með Wigan. Reuters

Hann er svo hraustur að Emile gamli Heskey er eins og hver önnur kveif við hliðina á honum. Er hann þó enginn vesalingur. Ekki nóg með það, hann raðar inn mörkum og hleypur af sér skó og sokka fyrir málstaðinn. Virkar ódrepandi.

Maður veltir því hreinlega fyrir sér hvort hann hafi alls ekki orðið til undir voðum, heldur á tilraunastofu eða í einhverjum svaðalegum sýndarveruleika.

Egypski miðherjinn hjá Wigan Athletic, Amr Zaki, hefur komið eins og stormsveipur inn í ensku úrvalsdeildina í knattspyrnu. Er nú markahæstur með sjö mörk í níu leikjum – og hvergi nærri hættur.

Skjallið hefur heldur ekki látið á sér standa. „Haldi Zaki uppteknum hætti á hann bjarta framtíð fyrir sér í úrvalsdeildinni,“ segir Steve Bruce, knattspyrnustjóri Wigan. „Hann er hamrammur, gríðarlega kraftmikill og fljótur og mikilvægast af öllu, markvís með afbrigðum.“

Dave Whelan, stjórnarformaður Wigan, gengur svo langt að bera Zaki saman við mesta markahrók úrvalsdeildarinnar frá upphafi, Alan Shearer. „Hann hefur sama öryggið þegar hann fær knöttinn. Veit hvar markið er og þarf ekki að líta upp. Þetta er eðlishvöt. Það er ekki hægt að lýsa þessu, þetta er fáum gefið.“

Stakk upp í Mido

Zaki hlaut eldskírn sína sautján ára gamall hjá Al-Mansoura í heimalandi sínu og gerði þar tuttugu mörk í jafnmörgum leikjum áður en annað egypskt félag, ENPPI, festi kaup á honum árið 2003. Hann gerði sig snemma breiðan þar og annan veturinn varð hann markakóngur deildarinnar. ENPPI lauk þá keppni í öðru sæti, sem var besti árangur félagsins fram að því, og hampaði egypska bikarnum í fyrsta sinn. Alls lék Zaki 41 leik fyrir ENPPI og gerði í þeim sextán mörk.

Sjá nánar greinina í heild í átta síðna íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert