Chelsea setti nýtt met í efstu deild ensku knattspyrnunnar í gær með því að sigra Bolton á útivelli, 2:0. Það var ellefti sigurleikur Lundúnaliðsins í röð á útivelli og það sló met Tottenham frá árinu 1960, sem var 10 sigurleikir í röð á völlum andstæðinganna.
Chelsea vann síðustu þrjá útileiki sína á síðasta tímabili og hefur unnið alla átta á þessari leiktíð. Liðinu hefur hinsvegar gengið óvenjuilla á heimavelli og tapað þar tveimur leikjum, auk jafntefla, og þar með er Chelsea í öðru sæti deildarinnar, stigi á eftir Liverpool.
Það voru Nicolas Anelka og Deco sem skoruðu mörkin í fyrri hálfleiknum, Anelka með fallegum skalla og Deco með magnaðri "klippingu" utarlega úr vítateignum.