Búlgarinn Dimitar Berbatov framherji Manchester United segir að leikmenn geti ekki leyft sér að halda að úrslitin séu ráðin í ensku úrvalsdeildinni þrátt fyrir að forysta liðsins sé nú orðin fimm stig.
,,Þetta var mjög mikilvægur sigur fyrir okkur og þetta var það sem knattspyrnustjórinn sagði við okkur fyrir leikinn. Við hefðum kannski átt að skora fleiri mörk en engu að síður getum við glaðst með þennan sigur. Við erum mjög sáttir með að hafa náð fimm stiga forskoti en það eru margir leikir eftir og baráttan um titilinn er enn galopin,“ sagði Berbatov við Manchester United sjónvarpsstöðina en Búlgarinn skoraði sitt 12. mark á leiktíðinni gegn Fuham í gær.
Líkt og Sir Alex Ferguson hrósaði Berbatov Paul Scholes í hástert fyrir frammistöðu hans í leiknum.
,,Það er enginn í heiminum eins og Paul Scholes. Hann er sá eini sem getur skotið af þessari nákvæmni,“ sagði Berbatov en Scholes skoraði fyrsta markið með viðstöðulausu skoti rétt utan vítateigs. ,,Sendingar hans og hvernig hann breytir leikjum er frábært. Allir knattspyrnustjórar væru ánægðir að hafa hann en það er okkar heppni að hann spilar með Manchester United,“ sagði Berbatov.