Hugmyndir þess efnis, að skipta ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu upp í tvær úrvalsdeildir, hafa hlotið hljómgrunn víða á Englandi undanfarna daga. Höfundur hugmyndarinnar, Phil Gartside, stjórnarformaður Bolton, hefur þegar fengið stuðning sjö úrvalsdeildarfélaga, en alls þarf hann atkvæði fjórtán félaga eigi hugmyndin að ganga í gegn.
Hugmynd Gartside er sú, að í stað þess fyrirkomulags sem nú er við lýði, það er ein 20 liða úrvalsdeild, verði sett á laggirnar tvær 18 liða deildir, úrvalsdeild 1, og úrvalsdeild 2. Tvö neðstu liðin í úrvalsdeild 1 myndu falla í úrvalsdeild 2 og tvö efstu lið úrvalsdeildar 2 færu upp í úrvalsdeild 1. Hinsvegar myndu neðstu lið úrvalsdeildar 2 ekki falla um deild, samkvæmt hugmyndum Gartside.
Celtic og Rangers með?
Þá er ætlunin að skosku liðin Rangers og Celtic fengju sæti í úrvalsdeild 2 en sú hugmynd hefur áður verið viðruð að þessi lið spiluðu í Englandi. Er jafnvel talað um að skosku liðin þyrftu að borga fyrir slíkan aðgang og hefur talan 100 milljónir punda á hvort lið verið nefnd. Einnig hefur Gartside kynnt nýja bikarkeppni með útsláttarfyrirkomulagi, þar sem aðeins lið úr þessum tveimur úrvalsdeildum tækju þátt. Til viðbótar í þessu nýja fyrirkomulagi gerir Gartside ráð fyrir svokölluðu vetrarfríi, líkt og tíðkast víða á meginlandi Evrópu, sem virtir knattspyrnustjórar á borð við Sir Alex Ferguson og Arséne Wenger hafa lengi talað fyrir.
Auðurinn dreifist á fleiri
Markmiðið með þessari nýju útfærslu Gartside er að dreifa þeim auði sem skapast meðal úrvalsdeildarliða, til hinna sem minna mega sín, en efnahagskreppan gæti haft afar slæm áhrif á rekstur minni liða á Englandi, meðan stærstu félögin virðast ekki finna fyrir samdrætti í rekstri. Gartside hefur einnig hugmyndir um að koma á launaþaki hjá enskum liðum og þá vill hann einnig koma í veg fyrir yfirtökur erlendra fjárfesta á enskum liðum, en þessar hugmyndir haldast þó ekki endilega í hendur við úrvalsdeildafyrirkomulagið. Gagnrýnisraddir segja að Gartside sé með þessu einfaldlega að koma í veg fyrir að lið hans, Bolton, geti fallið, því reynslan sýnir að úrvalsdeildarlið sem falla, eiga oft erfitt með að koma sér upp á ný, og er Leeds, Southampton og Sheffield Wednesday ágætis dæmi um það. Einnig kemur þessi hugmynd í veg fyrir að neðrideildalið fái aðgang að úrvalsdeildinni, þar sem ekkert lið fellur úr úrvalsdeild 2, en rök Gartside eru þau, að neðrideildaliðin muni hvort sem er aldrei komast þangað á eigin verðleikum, því þau hafi ekki gert það hingað til. Þá er sagt að UEFA og FIFA muni aldrei samþykkja svo róttæka breytingu, en hafa ber í huga að stofnun úrvalsdeildarinnar árið 1991 þótti afar róttæk á sínum tíma. Gartside mun leggja tillögur sínar fram á fundi framkvæmdastjóra ensku félaganna á fimmtudag.