Andres Iniesta skaut Barcelona í úrslit Meistaradeildarinnar með marki í uppbótartíma gegn Chelsea á Stamford Bridge í kvöld. Liðin skildu jöfn, 1:1, en Börsungar komast í úrslitaleikinn á útimarkareglunni og mæta Manchester United í úrslitaleik í Róm á Ítalíu þann 27. maí.
Það stefndi allt í sigur Chelsea en þegar 92 mínútur voru komnar á leikklukkuna skoraði Iniesta með glæsilegu skoti, það eina sem fór á mark Chelsea í leiknum.
Chelsea komst yfir á 9. mínútu með stórkostlegu marki frá Essien og eftir að Eric Abidal varnarmanni Barcelona var vikið af velli á 66. mínútu héldu flestir að úrslitin væru ráðin en annað kom á daginn.
Eiður Smári Guðjohnsen lék síðustu mínútuna en honum var skipt inná fyrir Iniesta sem verður þjóðhetja í Katalóníu. Ljóst er að Eric Abidal og Daniel Alves missa af úrslitaleiknum, Abidal vegna rauða spjaldsins og Alves fékk að líta sitt annað gula spjald.
Leikmenn Chelsea voru æfir í leikslok og gerðu aðsúg að norska dómaranum en þeir vildu meina að Chelsea hefði átt að fá dæmdar tvær vítaspyrnur í stöðunni 1:0. Didier Drogba gekk lengst í mótmælunum og hann fékk gult spjald eftir leikinn.
Textalýsing af leiknum er hér að neðan:
90. Leiknum er lokið með 1:1 jafntefli. Barcelona er komið í úrslit.
90. Eiður Smári og Sylvinho koma inná í liði Börsunga.
90. Andres Iniesta skorar með glæsilegu skoti á þriðju mínútu í uppbótartíma. Staðan 1:1 og með þessari stöðu kemst Barcelona í úrslitaleikinn.82. Norski dómarinn lokar augunum og dæmir ekki augljósa vítaspyrnu á Gerard Pique sem fékk boltann í útrétta höndina eftir að Anelka reyndi að vippa boltanum framhjá honum.
77. Varnarmaðurinn Alex í liði Chelsea fær gult spjald fyrir brot á Messi. Þar með er Brasilíumaðurinn kominn í bann og missir af úrslitaleiknum komist Chelsea í hann.
72. Didier Drogba haltrar af velli og inná fyrir hann kemur Juliano Belletti sem lék með Barcelona áður en hann gekk í raðir Lundúnaliðsins.
66. Rautt spjald!! Eric Abiadal er rekinn af velli fyrir brot á Nicolas Anelka sem var að sleppa einn í gegn. Útlitið er því orðið dökkt fyrir Börsunga sem eru marki undir og manni færri. Takist þeim hins vegar að jafna metin, 1:1, komast þeir í úrslitaleikinn á útimarkareglunni.
53. Didier Drogba fékk kjörið tækifæri til að koma Chelsea í 2:0 en Victor Valdes markvörður Barcelona kom sínum mönnum til bjargar og varði með fætinum af stuttu færi.
45. Norski dómarinn Tom Ovrebo hefur flautað til leikhlés á Stamford Bridge. Chelsea er 1:0 yfir og eins og staðan er mætast sömu lið og í fyrra í úrslitum Meistaradeildarinnar, Manchester United og Chelsea.
30. Daniel Alves bakvörður Barcelona fær að líta gula spjaldið sem þýðir að hann verður í banni takist Börsungum að komast í úrslitaleikinn.
25. Chelsea menn eru fullir sjálfstrauts og John Terry skallaði rétt framhjá markinu eftir hornspyrnu rétt eftir að Valdes hafði varið með lærinu aukaspyrnu frá Drogba.
23. Victor Valdes markvörður Barcelona bjargar á síðustu stundu fyrir Barcelona. Didier Drogba var að sleppa einn í gegn en Valdes kom út úr markinu og var sekúndubroti á undan Drogba í boltann.
9. Michael Essien skorar stórbrotið mark og kemur Chelsea í 1:0. Ghanamaðurinn tók boltann á lofti utan vítateigs og þrumaði honum með vinstri fæti í slá og inn. Chelsea er ósigrað á heimavelli í Meistaradeildinni í síðustu 17 leikjum svo nú er á brattann að sækja fyrir Börsunga.