Dýrlingarnir í Southampton eygja nú bjartari framtíð eftir mörg skakkaföll á liðnum árum. Sterkefnaður fjárfestir hyggst koma liðinu uppúr öldudal 2. deildarinnar, þar sem Kevin Keegan verður knattspyrnustjóri og Matt Le Tissier stjórnarformaður, en báðir eru þeir fyrrum leikmenn félagsins, sem og þeir ástsælustu.
Sem kunnugt er þá féll Southampton í 2. deild í vetur, þar sem stig voru dregin af félaginu þar sem það var tekið til gjaldþrotaskipta.
Í dag rennur út fresturinn sem Pinnacle fjárfestingahópurinn hefur til þess að ljúka við kaupin á félaginu, en hópurinn er leiddur af Tony Lyman, þó svo Matt le Tissier, helsta hetja Southampton liðsins fyrr og síðar, sé „andlit“ yfirtökunnar, en hann er talinn munu gegna stjórnarformennsku hjá félaginu. Þegar fresturinn rennur út getur hver sem er gert tilboð í félagið.
„Matt mun gegna mikilvægu starfi innan félagins. Ég kom fyrst inn í þetta dæmi eftir að ég fundaði með honum yfir kaffibolla og þar kom skýrt fram hversu hlýlega hann hugsar til félagsins. Fram að því hafði ég lítinn áhuga á þessu dæmi öllu,“ sagði Tony Lyman.
Kevin Keegan, sem skoraði 37 mörk í 68 leikjum fyrir félagið árin 1980-82, er talinn verða knattspyrnustjóri liðsins á næstu leiktíð, en hann var síðast stuttlega við stjórnvölinn hjá Newcastle á síðustu leiktíð.