Christian Purslow, framkvæmdastjóri Liverpool, hefur þverneitað þeim sögusögnum sem uppi hafa verið í fjölmiðlum, um að Rafel Benítez, knattspyrnustjóri liðsins, sé að fara frá liðinu, vegna ósættis við eigendur félagsins er viðkemur ráðstöfunarfé til leikmannakaupa. Benítez hefur einnig neitað orðrómnum sjálfur.
„Þetta er 100% kjaftæði. Ég snæddi kvöldverð með Benítez og sú staðreynd að hvorugur okkar hafði heyrt af þessum orðrómi segir allt um sannleiksgildi hans,“ sagði Purslow.
Benítez hefur einnig borið orðróminn til baka. „Ég er 100% skuldbundinn félaginu, aðdáendunum og leikmönnunum.“
Heimildir herma að Benítez hafi verið ósáttur við að fá aðeins um tvær milljónir punda til leikmannakaupa eftir kaup hans á Alberto Aguilani frá Roma, sem sé minna en honum hafi verið lofað.