Defoe setur pressu á Capello

Jermain Defoe skorar annað mark Englands í leiknum í gær.
Jermain Defoe skorar annað mark Englands í leiknum í gær. Reuters

Jermain Defoe, sóknarmaður Tottenham Hotspur, skoraði í gær sitt áttunda mark fyrir enska landsliðið eftir að Fabio Capello tók þar við stjórninni. Hann gerði síðara markið í 2:1 sigri á Slóveníu á Wembley og hefur nú sett mikla pressu á aðra sóknarmenn Englendinga, og á þjálfarann.

Defoe hefur gjarnan komið inná sem varamaður í landsleikjunum og nýtt tækifærin vel en Capello hefur helst byrjað með þá Wayne Rooney og Emile Heskey í fremstu víglínu. England mætir Króatíu í mikilvægum leik í undankeppni HM á miðvikudagskvöldið og eftir vináttuleikinn í gær viðurkenndi Capello að hann væri í smá vanda.

„Þegar Defoe kemur til leiks í seinni hálfleik skorar hann mark. Það er minn höfuðverkur að velja liðið og ég hef nokkra daga til stefnu," sagði Capello, en kvaðst einnig ánægður með frammistöðu Heskeys.

„Heskey lék vel, og síðan ákváðum við að prófa aðra leikaðferð og vera með tvo litla framherja í seinni hálfleik, Rooney og Defoe. Þeir spiluðu líka vel," sagði Capello við BBC.

Defoe segir sjálfur að ef hlutverk sitt sé að koma inná og skora mörk, sé hann sáttur. „Allir vilja spila, enginn vill sitja á bekknum. En ef ég get gert gagn með því að koma inná og skora, þá geri ég það. Ég spila með góðum leikmönnum í landsliðinu og fæ því alltaf góð marktækifæri. Það er svo þjálfarans að velja liðið, ég held bara áfram að leggja hart að mér og sé hverju það skilar," sagði Defoe.

Capello kvaðst ánægður með flest í leiknum í gær, nema  viðbrögð sinna manna þegar Slóvenar minnkuðu muninn í 2:1 rétt fyrir leikslok. „Eftir það var einbeitingin ekki í lagi, liðið var of hægt og fór að beita löngum sendingum. Það er ekki að mínu skapi. Ég vil að menn haldi einbeitingu og spili sinn leik frá upphafi til enda," sagði Ítalinn, en enska liðið getur tryggt sér sæti í úrslitakeppni HM með því að leggja Króata að velli á miðvikudaginn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka