Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United býst ekki við því að Michael Owen láti reiða stuðningsmenn Liverpool hafa nein áhrif á sig fari svo að hann spili með Englandsmeisturum Manchester United gegn Liverpool á Anfield á morgun.
Owen mun verða í byrjunarliðinu fari svo að Wayne Rooney verði ekki leikfær en Rooney hefur átt við meiðsli að stríða í kálfa.
,,Það verður áhugavert að sjá hvers konar móttökur hann fær. Það eru afar fáir leikmenn sem hafa spilað með báðum liðum. Paul Ince fékk auðvitað slæmar móttökur hjá okkar stuðningsmönnum þegar hann fór til Liverpool og Michael gæti fengið svipaðar. En hann er reyndur. Það er mikilvægt og ég held að hann láti ekkert trufla sig,“ segir Ferguson.
Owen var í guða tölu þegar hann lék með Liverpool en framherjinn knái skoraði 158 mörk fyrir félagið áður en hann fór til Real Madrid og síðan Newcastle.
,,Hann stóð sig frábærlega með Liverpool og í sögunni er hann einn besti framherji sem hefur spilað fyrir Liverpool. Hvort það hjálpi honum og að stuðningsmenn Liverpool taki fagnandi á móti honum er erfitt að spá fyrir um.“