Mark Hughes, knattspyrnustjóri Manchester City, sakar kollega sinn hjá Arsenal, Arsene Wenger, um að kunna ekki mannasiði. Wenger tók ekki í hönd Hughes að loknum leik liðanna í deildabikarnum í gærkvöld en City vann þar öruggan sigur, 3:0.
„Kannski er hann svo vanur að vinna að þegar hann tapar leikjum veit hann ekki hvernig hann á að haga sér," sagði Hughes.
Wenger kvartaði við fjórða dómarann í miðjum leik, yfir því að Hughes hefði farið yfir línuna á milli varamannaskýlanna og inná sitt svæði.
„Ég var eitt sinn kominn inná hans svæði og hann virtist vera í uppnámi yfir því. En ég held að hann hafi verið í enn meira uppnámi yfir því að hafa tapað leiknum. Ég hef komið á Emirates völlinn og tapað 2:6 en samt rétti ég fram hönd mína í leikslok. Það er það minnsta sem maður getur gert," sagði Hughes við BBC.
Wenger var spurður útí þessa framkomu sína. „Ég hef ekkert um þetta að segja. Mér er frjálst að taka í hendur þeirra sem ég vil eftir leikina," sagði Wenger við BBC.
Á blaðamannafundi eftir leikinn var sagt við Wenger að litið væri á handaband stjóranna eftir leik sem „fagmannlega kurteisi" og Wenger svaraði strax hæðnislega: „Ég bý ekki yfir fagmannlegri kurteisi."
Wenger kvaðst ennfremur á engan hátt sjá eftir því að tefla fram hálfgerðu varaliði í leiknum eins og hann hefur ávallt gert í deildabikarnum. „Ég lít ekki á sem svo að menn keyri sigurhring um borgina eftir að hafa unnið deildabikarinn. Þetta er keppni fyrir yngri leikmennina. Ef ég nota þá ekki í þessari keppni, hvenær ætti ég þá að gefa þeim tækifæri? Við vorum í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fyrra og mættum bestu liðum Evrópu. Það er tíu sinnum erfiðara en að spila í deildabikarnum," sagði Wenger ennfremur.