Didier Drogba framherjinn frábæri í liði Chelsea er tæpur fyrir leikinn gegn Manchester United en toppliðin tvö mætast í ensku úrvalsdeildinni á Old Trafford í hádeginu á laugardaginn.
Drogba tók ekki þátt í 7:1 sigri Chelsea á móti Aston Villa um síðustu helgi. Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea, ákvað að hvíla Fílabeinsstrandarmanninn eftir mikið álag síðustu vikurnar en hann meiddist á æfingu í vikunni og hefur ekki getað verið með á síðustu tveimur æfingum vegna meiðslanna.
Manchester United verður án Wayne Rooneys í leiknum. Rooney hefur skorað 34 mörk fyrir Englandsmeistarana á leiktíðinni og Drogba fylgir skammt á eftir með 31 mark.
Leiks Manchester United og Chelsea er beðið eftir með mikilli eftirvæntingu og telja margir að um hreinan úrslitaleik sé að ræða. United er efst með 72 stig, Chelsea hefur 71 og Arsenal 68.