Wenger: Verðskuldað rautt spjald

Jack Wilshire og Nikola Zigic, rétt eftir brotið umrædda.
Jack Wilshire og Nikola Zigic, rétt eftir brotið umrædda. Reuters

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, segir að það hafi verið hárrétt ákvörðun hjá dómara leiksins gegn Birmingham í gær að reka Jack Wilshere af velli í uppbótartíma.

Hinn 18 ára gamli Wilshere braut þá illa á Nikola Zigic, framherja Birmingham, og fékk umsvifalaust rauða spjaldið.

„Þetta var rautt spjald. Hann misreiknaði sig í tæklingunni, missti boltann frá sér, og það gerði útslagið. Þetta var ekki af ásettu ráði," sagði Wenger.

Alex McLeish, knattspyrnustjóri Birmingham, sagði að tæklingin hjá Wilshere hefði verið svipuð og hjá Martin Taylor, varnarmanni Birmingham, sem fótbraut Eduardo hjá Arsenal illa snemma árs 2008.

„Við höfum setið uppi með Eduardo-málið í meira en tvö ár. Martin Taylor misreiknaði sig í þeirri tæklingu og olli hræðilegum meiðslum, en þessi tækling hefði getað valdið því sama. Við vitum að Jack Wilshere er ekki grófur leikmaður en þetta sýnir okkur að allir geta misstigið sig í þessari íþrótt," sagði McLeish við BBC.

Wilshere sendi sjálfur frá sér afsökunarbeiðni í gærkvöld og sagði að það hefði verið rétt að reka sig af velli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert