Tony Pulis, knattspyrnustjóri Stoke City, segist alls ekki sjá eftir því að hafa fest kaup á Eiði Smára Guðjohnsen í haust og reiknar með því að hann verði kominn í sitt besta form í desember.
Eiður kom til Stoke frá Mónakó á síðasta degi ágústmánaðar en hefur enn ekki fengið tækifæri í byrjunarliðinu og var t.d. á varamannabekknum allan tímann í síðasta leik, gegn Everton.
Pulis sagði í viðtali við götublaðið The Sun í dag að hann reiknaði með því að Eiður þyrfti einn mánuð í viðbót til að komast í stand til að vera í byrjunarliðinu hjá sér.
„Hann er enn aðeins of þungur miðað við hvað hann þyrfti að vera. Vonandi verðum við komnir með hann í sitt besta form í desember. Hraðinn í úrvalsdeildinni er svo mikill að menn verða að vera 100 prósent klárir. En það er gott að hafa Eið í hópnum og hann hefur sýnt á köflum hvers konar leikmaður hann er. En hann er ekki í því standi sem við viljum," sagði Tony Pulis.