Hermann á enn nokkuð í land

Hermann Hreiðarsson.
Hermann Hreiðarsson. Reuters

Steve Cotterill, knattspyrnustjóri Portsmouth, segist ekki geta teflt Hermanni Hreiðarssyni fram sem fastamanni í sínu liði enn sem komið er því hann eigi enn nokkuð í land með að ná fyrri styrk eftir langa fjarveru vegna meiðsla.

Hermann hefur komið við sögu í mörgum leikjum Portsmouth að undanförnu en aðeins byrjað einu sinni inná, einu sinni verið skipt inná um miðjan fyrri hálfleik og síðan oftast komið inná sem varamaður undir lok leikja.

Portsmouth hefur fengið á sig þrjú mörk í leik að undanförnu og er í vandræðum vegna meiðsla lykilmanna. Cotterill sagði við Portsmouth News að Hermann gæti ekki leyst úr vandamálum liðsins.

„Hermann á enn nokkuð í land með að ná fyrri styrk og óvíst að hann nái því fyrr en langt er liðið á tímabilið. Hann og Danny Webber eru menn sem hefðu samanlagt geta verið búnir að spila samtals 48 leiki með liðinu á þessu tímabili en samanlagt hafa þeir varla náð meiru en einum og hálfum leik. Slíkt gerist þegar menn eru lengi frá og málið er að þegar þeir koma aftur er ekki sjálfgefið að þeir séu jafnsterkir og áður," sagði Cotterill.

„Ég tel að Hermann sé ekki tilbúinn í byrjunarliðið enn sem komið er. Ég hef ekki efni á að setja hann inn og segja honum að það sé allt í lagi þó hann geri mistök. Þetta er vandamálið við að hafa ekkert varalið til að láta menn spila, við höfum í besta falli náð að stilla upp nokkrum leikjum innan félags.

Hermann vill örugglega vera í byrjunarliðinu og telur sig eflaust kláran í það, en hann getur ekki ráðið því. Einhver annar þarf að stýra því og ég tel hann ekki vera tilbúinn enn sem komið er," sagði Cotterill.

Hermann sleit hásin í fæti í mars og þar sem hann er orðinn 36 ára gamall töldu margir að þar með væri ferli hans sem atvinnumaður lokið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert