Eigendur Liverpool tilbúnir í slaginn

John W. Henry aðaleigandi Liverpool ásamt nokkrum stuðningsmönnum félagsins.
John W. Henry aðaleigandi Liverpool ásamt nokkrum stuðningsmönnum félagsins. Reuters

Tom Warner, stjórnarformaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, segir að hinir nýju eigendur félagsins séu tilbúnir til að styrkja liðið myndarlega áður en mánuðurinn er úti og geti hæglega eytt yfir 20 milljónum punda í einn leikmann.

„Við gerum það hiklaust. Gæðin munu ráða ferðinni en við höfum fjármagn til að ná í sterka leikmenn. Launakostnaðurinn er mikill hjá félaginu en við ætlum ekki að reyna að skera hann niður, við ætlum að auka hann, og getum það. Hinsvegar munum við ekki ráðast í nein kaup sem ekki þjóna langtímamarkmiðum félagsins," sagði Warner við AFP-fréttastofuna í dag.

„Við lítum á okkur sem eitt af fjórum stóru félögunum og erum vel settir. Hinsvegar er enginn ánægður stöðuna eins og hún er. Allir vita að langtímamarkmið okkar eru að koma félaginu á sigurbraut á ný, og heiðra glæsilega sögu þess með fleiri titlum," sagði Warner.

Liverpool hefur m.a. verið orðað við Luis Suarez, úrúgvæska framherjann hjá Ajax, en Hollendingarnir eru sagðir vilja fá 25 milljónir punda fyrir kappann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert