Villas-Boas næsti stjóri Chelsea?

Jose Mourinho vann lengi með Andre Villas-Boas.
Jose Mourinho vann lengi með Andre Villas-Boas. Reuters

Portúgölsk fréttastofa birti í morgun frétt um að Andre Villas-Boas, þjálfari meistaraliðs Porto, verði næsti knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Chelsea.

Inter Mílanó vildi fá Villas-Boas en hann er með klásúlu í samningi sínum við Porto um að greiða þurfi 15 milljónir evra til að leysa hann undan honum, og Ítalirnir eru sagðir hafa dregið sig til baka við þær fréttir.

Undir stjórn Villas-Boas vann Porto deild og bikar í Portúgal í vetur og sigraði síðan í Evrópudeild UEFA.

Villas-Boas kannast við sig á Stamford Bridge því hann var aðstoðarmaður Josés Mourinhos þegar hann var knattspyrnustjóri Chelsea, og fylgdi honum hjá Porto, Chelsea og Inter, en tók síðan sjálfur við liði Porto árið 2009.

Guus Hiddink hefur mest allra verið orðaður við starf knattspyrnustjóra Chelsea en samkvæmt nýjustu fréttum gætu málin þróast þannig að hann yrði yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu og Villas-Boas þá knattspyrnustjóri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert