Chamakh úr leik hjá Arsenal

Marouane Chamakh í leik með Arsenal í Meistaradeidilnni.
Marouane Chamakh í leik með Arsenal í Meistaradeidilnni. Reuters

Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal staðfesti í dag að marokkóski framherjinn Maroune Chamakh hefði meiðst á hné og yrði líklega ekki með liðinu næstu vikurnar.

Hann er sá eini sem dettur út úr hópi Arsenal fyrir leikinn gegn Marseille í Meistaradeild Evrópu annað kvöld en Park Chu-Young kemur væntanlega í hópinn í hans stað.

Wenger staðfesti jafnframt að Thomas Vermaelen væri klár í slaginn annað kvöld. Hann er að komast í gang eftir meiðsli og kom inná sem varamaður undir lok leiksins við Chelsea á laugardaginn.

Þá er Yossi Benayoun líka tilbúinn eftir meiðsli en hann var ekki með gegn Chelsea.

Arsenal er efst í F-riðli Meistaradeildarinnar með 7 stig eftir 1:0 sigur á Marseille í Frakklandi á dögunum. Marseille er með 6 stig, Olympiacos 3 og Borussia Dortmund er með eitt stig. Með sigri annað kvöld væri Arsenal því nánast öruggt með sæti í 16-liða úrslitum keppninnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka