England á aðeins tvö lið í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu en það hefur ekki gerst frá því slíkt keppnisfyrirkomulag var tekið upp fyrir níu árum. Manchester-liðin eru bæði úr leik, þau höfnuðu bæði í þriðja sæti í sínum riðlum og leika því í Evrópudeild UEFA eftir áramótin.
Það eru líka örlög Ajax, liðs Kolbeins Sigþórssonar, sem missti niður sjö marka forskot á Lyon frá Frakklandi í gærkvöld, tapaði 0:3 fyrir Real Madrid á meðan Lyon vann ótrúlegan 7:1 sigur á Dinamo Zagreb á útivelli.
Nú liggur fyrir hvaða sextán lið halda áfram í Meistaradeildinni, og jafnframt hvernig þau raðast í styrkleikaflokkana tvo áður en dregið verður til 16 liða úrslitanna á föstudaginn í næstu viku, 16. desember.
Efri flokkur: Bayern München, Inter Mílanó, Benfica, Real Madrid, Chelsea, Arsenal, APOEL Nicosia og Barcelona.
Neðri flokkur: Napoli, CSKA Moskva, Basel, Lyon, Leverkusen, Marseille, Zenit St. Pétursborg, AC Milan.
Liðin sem eru í efri styrkleikaflokknum fá seinni leikinn á heimavelli í 16 liða úrslitunum. Lið frá sama landi geta ekki dregist saman, og heldur ekki þau sem voru saman í riðli.