Warnock: Suárez þarf vernd

Luis Suárez fagnar sigurmarkinu gegn QPR í gær.
Luis Suárez fagnar sigurmarkinu gegn QPR í gær. Reuters

Neil Warnock, knattspyrnustjóri QPR, segir að Luis Suárez, úrúgvæski framherjinn hjá Liverpool, þurfi meiri vernd frá enska knattspyrnusambandinu vegna þess orðbragðs sem hann þurfi jafnan að þola frá stuðningsmönnum andstæðinganna.

Warnock hældi Suárez á hvert reipi eftir að hann tryggði Liverpool sigur á QPR á Anfield, 1:0, í úrvalsdeildinni í gær, og hvatti jafnframt knattspyrnusambandið til að skoða sín mál gagnvart honum.

„Hann nýtir ekki færin sem allra best, en það er ekki hægt að hafa allt. Ef hann myndi skora úr öllum færum væri hann 50-70 milljón punda leikmaður. En lið sem leikur án hans er fátækara fyrir vikið. Mér fannst hann bera höfuð og herðar yfir aðra leikmenn á vellinum. Það er ekki hægt að halda honum í skefjum, ég efast um að nokkurt lið geti það. Eina sem maður getur gert er að vona að hann verði í banni þegar við leikum gegn hans liði. Hann hefur allt, gefur 110 prósent í alla leiki, leyfir varnarmönnum aldrei að slaka á, snýr sér út og suður. Vissulega nýtir hann færin ekki vel en hann vann leikinn fyrir Liverpool. Hann er hverrar krónu virði," sagði Warnock við The Guardian og bætti síðan við:

„Hann er erlendur leikmaður í framandi landi. Hann fær þvílíkar trakteringar frá stuðningsmönnum mótherjanna á útivöllum að það þyrfti að vernda hann einhvern veginn. Vissulega þarf hann að læra að það þýðir ekkert að gefa áhorfendum einhverjar bendingar, en, fjandinn hafi það, miðað við allt það orðbragð sem er beint að honum þá er kominn tími til að knattspyrnusambandið fari að gera eitthvað í málinu. Vallarstarfsmennirnir hljóta að heyra allan óhróðurinn sem hann fær yfir sig en þeir aðhafast ekkert," sagði Warnock, ómyrkur í máli að vanda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert