Mancini: Ferguson er kóngurinn í Manchester

Alex Ferguson og Roberto Mancini mætast á morgun.
Alex Ferguson og Roberto Mancini mætast á morgun. Reuters

Roberto Mancini, knattspyrnustjóri Manchester City, segir að þó sitt lið sé efst í úrvalsdeildinni sem stendur sé það Alex Ferguson sem sé ókrýndur kóngur fótboltans í Manchesterborg og það muni taka City langan tíma að velta United úr sessi sem topplið borgarinnar.

Liðin mætast í sannkölluðum stórleik í 3. umferð ensku bikarkeppninnar á Etihad-leikvanginum á morgun klukkan 13. City fór illa með United á Old Trafford, 6:1, í úrvalsdeildinni fyrr í vetur og er með þriggja stiga forystu á granna sína í deildinni.

„Hann getur haldið áfram sem stjóri United í mörg ár enn, og getur enn bætt við skrautfjöðrum. Jafnvel þó City sé efst núna, því gæti hann ekki verið áfram? Það er útilokað að eitt og sama liðið vinni alltaf allt. United hefur unnið svo mikið af titlum á undanförnum árum að héðan af getur hans orðspor aldrei beðið hnekki," sagði Mancini við Daily Mail.

Ítalinn sagði jafnframt að þrátt fyrir góða stöðu í dag ætti City enn langt í land með að komast uppfyrir United.

„United er besta lið Englands. Kannski ekki í augnablikinu því sex eða sjö sterkir menn eru meiddir. En þeir eru með mikinn andlegan styrk og eru við toppinn. Það tekur okkur meira en tvö ár að verða eins og þeir. Svona hafa þeir verið í 25 ár. Við getum styrkt okkar stöðu ef við vinnum meistaratitilinn eða aðra bikara. Það hófst í fyrra. En við náum þeim ekki á tveimur árum," sagði Mancini ennfremur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka