Níðsöngvar Liverpool höfðu áhrif á Barry

Gareth Barry, til hægri, fagnar marki með Manchester City
Gareth Barry, til hægri, fagnar marki með Manchester City Reuters

Gareth Barry, miðjumaður Manchester City og enska landsliðsins í knattspyrnu, segir að níðsöngvar stuðningsmanna Liverpool í sinn garð hafi haft mikið að segja um að hann hætti við að ganga til liðs við félagið á síðustu stundu.

Sumarið 2008 benti allt til þess að Liverpool myndi kaupa Barry af Aston Villa fyrir 15 milljónir punda en af því varð svo ekki og í staðinn keypti City hann ári síðar.

„Á meðan samningaferlið var í gangi sat ég heima og horfði á Liverpool í sjónvarpinu, í vináttuleik gegn Lazio, og stuðningsmenn Liverpool sungu: „Þið getið stungið Gareth Barry upp í afturendann á ykkur. Ég heyrði þetta þótt ég sæti heima og það sat eftir í höfðinu á mér,“ sagði Barry við ESPN.

„Liverpool hafði enn áhuga þegar ég ákvað að fara til City en ég fann að City væri á uppleið á meðan ég taldi að Liverpool ætti erfiðari tíma framundan. Auðvitað er Liverpool frábært félag með magnaðan stuðning en ég varð bikarmeistari í fyrra og spilaði í Meistaradeildinni í vetur. Nú finn ég að ég tók rétta ákvörðun,“ sagði Barry sem mætir með City á Anfield í kvöld.

„Þetta verður virkilega erfitt því Liverpool er firnasterkt á heimavelli og fær geysilegan stuðning. En við erum á útivelli, einu marki undir, og held að við munum mæta afslappaðir til leiks og spila góðan fótbolta, og pressan verði meiri á Liverpool,“ sagði Barry.

Seinni leikur liðanna í undanúrslitum deildabikarsins hefst á Anfield klukkan 19.45. Liverpool vann fyrri leikinn 1:0 en sigurliðið samanlagt mætir Cardiff í úrslitaleik á Wembley 26. febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert