Gylfi Þór leikmaður mánaðarins

Gylfi Þór skoraði tvennu gegn Fulham í mars.
Gylfi Þór skoraði tvennu gegn Fulham í mars. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson varð í dag fyrsti Íslendingurinn til að hljóta útnefninguna leikmaður mánaðarins í ensku úrvalsdeildinni. Gylfi Þór þótti skara fram úr í marsmánuði en hann skoraði þá fjögur mörk fyrir lið sitt Swansea.

Swansea spilaði fjóra leiki í mars og vann þrjá af þeim. Gylfi skoraði tvennu í 3:0-útisigri á Fulham og bæði mörkin í 2:0-útisigri á Wigan. Hann skoraði svo eina mark Swansea þegar liðið tapaði fyrir Tottenham hinn 1. apríl.

Jürgen Klinsmann, þáverandi leikmaður Tottenham, var fyrstur til að hljóta þessa nafnbót er hann var valinn leikmaður ágústmánaðar árið 1994.

Owen Coyle, knattspyrnustjóri Bolton, var valinn besti stjórinn í marsmánuði. Bolton vann þrjá mikilvæga fallslagi í mánuðinum en tapaði fyrir Manchester City. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert