Neville í þjálfarateymi enska landsliðsins

Gary Neville.
Gary Neville. Reuters

Gary Neville, fyrrum fyrirliði Manchester United, var í dag ráðinn í þjálfarateymi enska landsliðsins í knattspyrnu og verður aðstoðarmaður Roy Hodgson nýráðins þjálfara enska landsliðsins. Samningur Neville er til fjögurra ára.

Neville lagði skóna á hilluna í fyrra en hefur hefur menntað sig í þjálfun og er með UEFA réttindi. Neville lék 85 landsleiki fyrir England og tók tók þátt í úrslitakeppni EM 1996, 2000 og 2004 og í úrslitakeppni HM 1998 og 2006.

Frá því að Neville hætti að spila hefur hann starfað hjá Sky Sports við fótboltalýsingar og fleira í þeim dúr og hefur þótt standa sig vel á þeim vettvangi. Neville bætist í þjálfarateymi sem í eru markvarðarþjálfarinn Ray Clemence, Ray Lewington og Dave Watson.

,,Gary hefur afrekað mikið í fótboltanum sem leikmaður Manchester United og enska landsliðsins. Hann er mjög virtur af leikmönnum og þegar ég hitti fyrst stjórn enska knattspyrnusambandsins þá útskýrði ég fyrir mönnum að Gary væri einhver sem ég vildi fá með mér í þjálfarateymið,“ segir Roy Hodgson á vef enska knattspyrnusambandsins.




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert