Dave Whelan, stjórnarformaður enska úrvalsdeildarfélagsins Wigan Athletic, hefur gefið Liverpool frest til næsta fimmtudags til að gera upp hug sinn varðandi knattspyrnustjórann Roberto Martinez.
Whelan segir jafnframt að hann vonist eftir því að Liverpool kjósi að ráða Brendan Rodgers frá Swansea sem knattspyrnustjóra í staðinn fyrir Kenny Dalglish, en kvittur er á kreiki um það á ný, þrátt fyrir að Rodgers hafi á dögunum hafnað því að ræða við Liverpool.
„Ef það er rétt að Liverpool vilji ræða við Brendan Rodgers, sýnir það að þeir vita ekki hvern þeir vilja sem knattspyrnustjóra. Ég vona að þeir velji Brendan Rodgers. Roberto hefur sagt mér að hann muni ræða við Liverpool á ný á þriðjudag. Ég hef gert honum ljóst að ég vilji lokaniðurstöðu í málið í síðasta lagi á fimmtudag, þar sem við þurfum að fara að hefja undirbúning fyrir næsta keppnistímabil,“ sagði Whelan við ESPN.