Wenger: Van Persie verður áfram í Arsenal

Robin van Persie.
Robin van Persie. AFP

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, ítrekar það að framherjinn Robin van Persie muni halda kyrru fyrir hjá félaginu og hann segist ekki sjá neina ástæðu fyrir því hvers vegna leikmaðurinn ætti að vilja fara til Juventus.

Van Persie á eitt ár eftir af samningi sínum við Arsenal og vonaðist Wenger eftir því að finna lausn á framtíð fyrirliðans fyrir Evrópumótið. Ekki tókst að ljúka samningum áður en Van Persie fór með hollenska landsliðinu á EM og í kjölfar þess fóru af stað vangaveltur um að hann væri á förum frá félaginu.

Van Persie hefur verið orðaður við lið eins og Juventus, Manchester City, Barcelona og Real Madrid en Wenger sagði í viðtali við ítalska blaðið La Repubblica:

„Hann verður um kyrrt hjá Arsenal. Hvers vegna ætti toppleikmaður að vilja fara í Seríu A miðað við þann orðstír sem fer af deildinni, gæðin í deildinni eða með tilliti til fjárhagserfiðleika liðanna þar?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka