Newcastle með jafntefli í Grikklandi

Leikmenn Newcastle fagna jöfnunarmarkinu hjá Ryan Taylor.
Leikmenn Newcastle fagna jöfnunarmarkinu hjá Ryan Taylor. AFP

Newcastle stendur ágætlega að vígi í einvíginu við gríska liðið Atromitos um sæti í riðlakeppni Evrópudeildar UEFA í knattspyrnu eftir jafntefli liðanna, 1:1, í fyrri leiknum í Aþenu í kvöld.

Grikkirnir komust yfir snemma leiks þegar Denis Epstein skoraði en Ryan Taylor jafnaði fyrir hlé, beint úr aukaspyrnu.

Alan Pardew, knattspyrnustjóri Newcastle, hvíldi marga lykilmenn sína og gerði níu breytingar á liðinu frá sigurleiknum gegn Tottenham síðasta sunnudag. Newcastle spilar strax aftur á laugardaginn þegar liðið mætir Chelsea.

Demba Ba, Fabricio Coloccini og Cheick Tiote fóru ekki með til Aþenu og Hatem Ben Arfa var í leikbanni.

Liðin mætast aftur á St. James' Park í Newcastle eftir viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert