Theo Walcott, enski landsliðsmaðurinn hjá Arsenal, segir að hann eigi skilið að vera í byrjunarliðinu hjá Arsene Wenger sem hefur haldið honum mikið á varamannabekknum í haust.
Walcott hefur verið tregur til að ganga frá nýjum samningi við félagið og talið er að það sé ástæðan fyrir því að Wenger hefur haldið honum talsvert fyrir utan byrjunarliðið. Walcott byrjaði þó inná gegn Schalke í Meistaradeildinni í gærkvöld og skoraði fyrra markið þegar liðin skildu jöfn, 2:2, í Gelsenkirchen.
„Ég vil bara spila, og vonandi fæ ég nú fleiri tækifæri í liðinu í framhaldi af þessu. Mér finnst ég verðskulda það," sagði Walcott við fréttamenn en vildi ekki ræða hvort bekkjarseta hans tengdist samningamálunum.
„Þið verðið að spyrja stjórann. Ég get ekki svarað því. Ég vil bara spila með liðinu og vonandi vinnum við úrvalsdeildina," svaraði Walcott.