José Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, fullyrti að Luis Suárez, framherji Liverpool, hefði kastað sér niður til að reyna að fá vítaspyrnu seint í leik liðanna á Stamford Bridge í dag.
Atvikið þótti umdeilt en Samuel Eto'o virtist þá brjóta á Suárez innan vítateigs Chelsea, eftir að sá síðarnefndi hafði misst boltann til Cesars Azpilicueta. Howard Webb dómari var mjög nálægt og lét leikinn halda áfram.
Mourinho brást mjög illa við á bekknum, benti og pataði og var greinilega óhress með Suárez, og gagnrýndi hann þegar hann ræddi við fréttamenn eftir leikinn.
„Suárez er góður drengur og frábær leikmaður. En hér í landi eru ákveðin gildi í heiðri höfð og ég er ábyrgur fyrir að viðhalda þeim. Ég er ekki Englendingur og það koma stöðugt fleiri erlendir þjálfarar í úrvalsdeildina. England er sérstakt land og eitt af því góða er að Englendingar eru ekki með leikaraskap. Hann er ekki góður fyrir íþróttina og honum verður að linna," sagði Mourinho, sem sagði að Eto'o hefði ekki gert neitt af sér í umræddu einvígi.
„Suárez tapaði fyrir Azpilicueta í návígi, og lét sig detta á dramatískan hátt í kjölfarið til að reyna að fá víti. Sem betur fer var það ekki dæmt. Einu mistök dómarans þarna voru að sýna honum ekki gula spjaldið," sagði Mourinho, sem hrósaði Suárez síðan fyrir að hafa bætt framkomu sína, en reyndi síðan að útskýra hversvegna hann hefði reynt að fiska vítaspyrnu.
„Þegar hann finnur að hann er að tapa leiknum, kemur eðlið í ljós. Hann er frá heimshluta þar sem leikaraskapur þykir ekki tiltökumál," sagði Mourinho.