Wenger fær grænt ljós á stórkaup

Arsene Wenger er í leit að framherja.
Arsene Wenger er í leit að framherja. AFP

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, hefur fengið grænt ljós frá Stan Kroenke, einum aðal fjárfesta félagsins, til þess að freista þess að kaupa framherjann Diego Costa frá Athlético Madrid, en hann ætti að kosta skildinginn.

Kroenke hefur látið hafa eftir sér að það séu til fjármunir til leikmannakaupa, en Arsenal sárvantar framherja eftir að það var ljóst í gær að Theo Walcott spilar ekki meira með á tímabilinu.

Wenger hefur opinberað áhuga sinn á Costa og segir Kroenke að ef samningar náist ekki væri lítill stuðningur frá stjórninni ekki um að kenna, en Costa hefur klásúlu í samningi sínum að hann megi fara fyrir 32 milljónir punda. Bæði Manchester United og Chelsea eru sögð fylgjast grannt með leikmanninum.

„Leikmaðurinn er með klásúlu í sínum samningi og stóru liðin á Englandi vita af því. Diego Costa hefur þroskast mikið, sérstaklega í sínum ákvörðunum á vellinum. Eins og staðan er núna hugsar hann ekki um brottför héðan enda er hann nýbúinn að skrifa undir samning. Ég er vongóður að hann fari ekki í þessum mánuði,“ sagði Jose Luis Peres, yfirmaður knattspyrnumála hjá Atlético Madrid.

Wenger er ekki þekktur fyrir að opna veskið of mikið og eftir að hafa borgað metfé fyrir Mesut Özil frá Real Madrid í sumar gæti hann freistast til þess að horfa til ódýrari leikmanna. Í því samhengi hafa verið nefndir Dimitar Berbatov frá Fulham, Miroslav Klose frá Lazio og Loic Remy frá QPR sem er á láni hjá Newcastle.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert