Suárez gæti orðið 100 milljóna punda virði

Luis Suárez skoraði þrennu um síðustu helgi.
Luis Suárez skoraði þrennu um síðustu helgi. AFP

Brendan Rodgers knattspyrnustjóri Liverpool telur að frábær frammistaða Úrúgvæjans Luis Suárez geti þýtt að fljótlega verði hann metinn á 100 milljónir punda.

Suárez hefur farið á kostum með Liverpool á leiktíðinni en hann er markahæstur í deildinni með 28 mörk og hefur svo sannarlega leikið margan varnarmanninn grátt á tímabilinu.

„Verðgildi hans er sífellt að hækka. Ef þú horfir á þá bestu í heimi eins og Ronaldo og Messi, sem hafa verið að gera frábæra hluti síðustu fimm til sex árin, þá er Suárez á góðri leið með að komast í þennan hóp. Hann hefur verið frábær, hefur þroskast mikið sem leikmaður og er bara í heimsklassa,“ segir Rodgers.

Suárez verður í eldlínunni á Anfield í dag en klukkan 15 tekur liðið á móti Tottenham og nái Liverpool í stig úr þeim leik tyllir það sér á topp deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert