Leikmenn City fá best borgað

Ætla má að Fernandinho, Samir Nasri og David Silva leikmenn …
Ætla má að Fernandinho, Samir Nasri og David Silva leikmenn Manchester City eigi fyrir salti í grautinn. AFP

Ef marka má könnun SportingIntelligence þá eru leikmenn knattspyrnuliðs Manchester City í Englandi best launuðu íþróttamenn heims í hópíþróttum. Á listanum yfir þau félög sem borga best eru sex knattspyrnufélög meðal tíu efstu, tvö körfuboltalið og tvö hafnaboltalið.

Manchester City trónir á toppi listans og miðað við útreikninga SportingIntelligence eru meðallaun fastamanna í liði City því sem nemur einum milljarði íslenskra króna í árslaun. Það gerir rúmlega 83 milljónir í mánaðarlaun, tæplega 21 milljón í vikulaun eða rétt tæplega þrjár milljónir íslenskra króna í laun á dag.

Af öðrum enskum knattspyrnuliðum má nefna að Manchester United er í 8. sæti listans, Chelsea í 10. sæti, Arsenal í 11. sæti og Liverpool í 20. sæti. Munurinn á meðallaunum fastamanna hjá Manchester United og Liverpool er nokkur. Meðal árslaun leikmanna United eru um 816 milljónir króna en um 641 milljón króna hjá leikmönnum Liverpool ef marka má könnunina.

Bandarísku hafnaboltaliðin New York Yankees og Los Angeles Dodgers er í 2. og 3. sæti listans og spænsku knattspyrnuliðin Real Madríd og Barcelona koma í 4. og 5. sæti. Bandaríska körfuboltaliðið Brooklyn Nets er eina NBA liðið á topp tíu listanum og er í 6. sæti. Þýska knattspyrnuliðið Bayern München er svo í 7. sæti, enska knattspyrnuliðið Manchester United í 8. sæti, NBA körfuboltaliðið Chicago Bulls í 9. sæti og enska knattspyrnuliðið Chelsea í 10. sæti.

Könnunin náði til 294 liða í 15 deildum í 12 löndum og nær yfir sjö hópíþróttagreinar. Þó Brooklyn Nets og Chicago Bulls séu einu NBA körfuboltaliðin á listanum yfir tíu efstu eru meðallaunin þó hæst í NBA af öllum deildunum sem teknar voru inn í könnunina.

Könnunin tók aðeins til launa íþróttamanna í hópíþróttum frá félögunum sem þeir leika fyrir. Allar auglýsingatekjur og aðrar tekjur voru ekki reiknaðar inn í.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert