Hvetur stuðningsmennina til að halda ró sinni

Luis Suárez.
Luis Suárez. AFP

Luis Suárez framherjinn frábæri í liði Liverpool hvetur stuðningsmenn félagsins til að halda ró sinni nú þegar félagið keppist við að landa Englandsmeistaratitlinum í fyrsta sinn í 24 ár.

Hagur Liverpool á toppnum vænkaðist enn frekar í gær þegar Manchester City náði aðeins jafntefli gegn botnliði Sunderland á heimavelli. Liverpool er með tveggja stiga forskot á Chelsea í efsta sætinu en bæði lið eiga fjóra leiki eftir. Manchester City er sex stigum á eftir Liverpool en á leik til góða.

Liverpool mætir Chelsea annan laugardag á Anfield og sá leikur gæti orðið úrslitaleikur um titilinn í ár.

„Það er eðlilegt að stuðningsmennirnir verði spenntir og ræði sín á milli um möguleika okkar. Þegar ég er úti með fjölskyldunni að versla þá fara þeir að nefna þetta við mig. Ég hef sagt þeim að halda ró sinni og hafa ekki áhyggjur. Við munum reyna að gera okkar besta,“ segir Úrúgvæinn á vef Liverpool en hann hefur skorað 29 mörk í deildinni og er markahæstur.

Fyrir okkur leikmennina þá held ég að það sé best fyrir okkur að vera fyrir utan þessa umræðu. Persónulega held ég að ef ég horfi ekki á sjónvarp, hlusti á útvarpið eða lesi um okkur á netinu þá sé það betra. Ég veit hver staðan er. Að vinna titilinn yrði mjög sérstakt en við getum ekki hugsað um það strax,“ segir Suárez.

Liverpool sækir Norwich heim í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert