Sjö liða fallbarátta á Englandi

Stuðningsmenn Sunderland vonast eftir þremur heimasigrum á lokasprettinum, annars fer …
Stuðningsmenn Sunderland vonast eftir þremur heimasigrum á lokasprettinum, annars fer þeirra lið líkast til niður. AFP

Sjö lið eru eftir í hinni eiginlegu fallbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu, sem nú fer harðnandi eftir því sem nær dregur lokum keppnistímabilsins.

Sunderland, Cardiff og Fulham eru í fallsætunum og eru því líklegust til að falla eins og staðan er núna. En það getur verið fljótt að breytast og Norwich, sem er næst fyrir ofan fallsætin á eftir erfiðustu dagskrána af öllum liðunum.

Enn er hægt að segja að Crystal Palace, með 40 stig, West Ham með 37 stig og Hull City með 36 geti fallið, en það þarf orðið talsvert til að draga þau af alvöru inní fallslaginn, sérstaklega Palace. West Ham og Hull gætu, með því að tapa næstu tveimur leikjum, verið komin í baráttuna í lokaumferðunum. West Ham og Hull standa hinsvegar vel að vígi hvað markatölu varðar gagnvart neðstu liðunum og hún er því nánast eins og aukastig hjá báðum.

En liðin sjö sem eru þar fyrir neðan eru þau sem eru á hinu eiginlega hættusvæði og við skulum skoða hverjum þau mæta í síðustu fjórum umferðunum. Aston Villa, WBA og Sunderland eiga leik til góða á hin liðin:

14. Aston Villa (34 stig): Southampton (heima), Swansea (úti), Hull (heima), Manchester City (úti), Tottenham (úti).

15. Swansea (33 stig): Newcastle (úti), Aston Villa (heima), Southampton (heima), Sunderland (úti).

16. WBA (33 stig): Manchester City (úti), West Ham (heima), Arsenal (úti), Sunderland (úti), Stoke (heima).

17. Norwich (32 stig): Liverpool (heima), Manchester United (úti), Chelsea (úti), Arsenal (heima).

18. Fulham (30 stig): Tottenham (úti), Hull (heima), Stoke (úti), Crystal Palace (heima).

19. Cardiff (29 stig): Stoke (heima), Sunderland (úti), Newcastle (úti), Chelsea (heima).

20. Sunderland (26 stig): Chelsea (úti), Cardiff (heima), Manchester United (úti), WBA (heima), Swansea (heima).

Eins og sést á þessu á Sunderland eftir heimaleiki gegn þremur af keppinautum sínum í fallbaráttunni og gæti farið langt með að halda sér uppi með því að hala inn níu stig í þeim.

Norwich er hinsvegar heldur betur með bakið uppvið vegg, miðað við leikjadagskrána og hætt við að liðið falli ef því tekst ekki að hala inn a.m.k. einn sigur gegn stóru liðunum fjórum sem það mætir.

Vonir Arons Einars Gunnarssonar og félaga í Cardiff eru fyrst og fremst bundnar við næstu tvo leiki, heimaleikinn við Stoke á morgun og heimsóknina til Sunderland þar á eftir. Nái þeir fjórum til sex stigum úr þeim verða möguleikarnir ágætir fyrir lokaleikina.

Leikjadagskrá komandi helgar er annars þessi:

Laugardagur 19. apríl:11.45 Tottenham - Fulham
14.00 Aston Villa - Southampton
14.00 Cardiff - Stoke
14.00 Newcastle - Swansea
14.00 West Ham - Crystal Palace
16.30 Chelsea - Sunderland
Sunnudagur 20. apríl:
11.00 Norwich - Liverpool
13.05 Hull - Arsenal
15.10 Everton - Manchester United
Mánudagur 21. apríl:
19.00 Manchester City - WBA

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert