Solskjær: Við stöndum með Aroni

Aron Einar Gunnarsson í leik með Cardiff.
Aron Einar Gunnarsson í leik með Cardiff. AFP

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Cardiff City, segir að hann og félagið standi heilshugar að baki Arons Einars Gunnarssonar gagnvart ásökunum um að Aron hafi lekið upplýsingum um byrjunarlið félagsins gegn Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni fyrr í þessum mánuði.

Aron hefur sjálfur hafnað því algjörlega að hann sé á nokkurn hátt viðriðinn málið en nafn hans kom fyrir í sms-skilaboðum sem innihéldu byrjunarlið Cardiff í umræddum leik.

„Við munum verja nafn hans og heiður á allan mögulegan hátt. Aron verður í okkar hópi á laugardaginn, hann er með á æfingunum. Hann verður með nema hann meiðist. Við höfum farið yfir málið innanhúss hjá okkur, tekið á því og sent skýrslu til úrvalsdeildarinnar, og þar með er því lokið hvað okkur varðar. Við treystum úrvalsdeildinnni til að vinna úr því. Leikmenn okkar hafa tekið þessu á magnaðan hátt. Við ræddum þetta nokkrum sinnum og svo er það úr sögunni," sagði Solskjær við Sky Sports.

David Marshall, markvörður Cardiff, kemur Aroni líka til varnar. „Ég get fullyrt það að Aron er ekki maður sem myndi nokkru sinni láta sér til hugar koma að láta stjóra andstæðinganna eða nokkurn annan hafa byrjunarlið okkar. Aron er einn duglegasti og heiðarlegasti maður sem ég hef kynnst í fótboltanum. Ég veit ekki hvernig á því stendur að nafn hans skuli hafa flækst í þetta mál en ég myndi leggja allt mitt undir að Aron kemur hvergi nærri því," sagði Marshall.

„Hvað þennan leka varðar, þá geta menn í níu skipti af ellefu giskað rétt á byrjunarliðið í hverjum leik fyrir sig. Ég tel að þetta Aronsmál hafi aukið samstöðuna í okkar hópi undanfarna daga," sagði David Marshall.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert