Mourinho kaldhæðinn í viðtali eftir tapið gegn Sunderland

José Mourinho.
José Mourinho. AFP

José Mourinho knattspyrnustjóri Chelsea var stuttur í spuna þegar hann ræddi við fréttamann Sky eftir ósigurinn gegn botnliði Sunderland á Stamford Bridge í kvöld.

Tapið hjá Chelsea var það fyrsta á heimavelli undir stjórn Mourinho í 78 leikjum og úrslitin voru heldur vatn á myllu Liverpool sem getur náð fimm stiga forskoti á Chelsea vinni liðið Norwich á morgun.

„Ég ætla ekki að bíða eftir spurningu frá þér en það eru fjögur stutt atriði sem ég vil segja frá. Í fyrsta lagi þá vil ég óska leikmönnum mínum til hamingju. Þeir gerðu allt sem þeir gátu, þeir börðust frá fyrstu mínútu. Við hrósum leikmönnum eftir sigurleiki og ég held að það sé sanngjarnt að hrósa leikmönnum mínum eftir tapleik.

Í öðru lagi þá óska ég Sunderland til hamingju. Það skiptir ekki máli á hvaða hátt liðið vann leikinn og ég held að það sé líka sanngjarnt að óska liðinu til hamingu.

Í þriðja lagi þá vil ég líka óska Mike Dean til hamingju. Frammistaða hans var ótrúleg og þegar dómarar skila ótrúlegri frammistöðu þá er sanngjarnt að óska þeim til hamingju. Hann kom hingað með eitt markmið sem var að gera frábæra hluti og hann gerði það.

Þá óska ég Mike Riley til hamingju af því hann er yfirmaður dómara og það sem þeir gera allt tímabilið er frábært, sérstaklega á síðustu mánuðunum og sérstaklega fyrir félögin sem eru í titilbaráttunni. Ég vil líka óska Mike Riley til hamingju,“ sagði Mourinho.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert