Evra kaus Suárez besta leikmanninn

Luis Suárez og Patrice Evra.
Luis Suárez og Patrice Evra. AFP

Franski bakvörðurinn Patrice Evra, leikmaður Manchester United, kaus úrúgvæska framherjann Luis Suárez hjá Liverpool knattspyrnumann ársins í Englandi í hinni árlega kjöri leikmanna á þeim besta úr þeirra röðum, en niðurstaðan í því verður kunngjörð sunnudagskvöldið 27. apríl.

Sunday Mirror hefur þetta eftir heimildarmanni úr röðum United, og jafnframt að Evra hafi líka greitt Suárez atkvæði sitt á síðasta tímabili. „Suárez er frábær fótboltamaður en enginn hjá United trúði eigin augum þegar Patrice greiddi honum atkvæði sitt. Það segir sitt um hans persónuleika að hann skyldi ekki láta það sem gerðist á milli þeirra hafa áhrif á dómgreind sína. Hann ber greinilega engan kala til hans," hefur Sunday Mirror eftir heimilarmanninum.

Leikmönnunum tveimur lenti saman í leik Manchester United og Liverpool í október árið 2011 en Suárez fékk í kjölfarið átta leikja bann og 40 þúsund punda sekt fyrir meint kynþáttaníð í garð Frakkans.

Suárez er einn af þeim sex sem fengu flest atkvæði í kjörinu en nöfn þeirra voru opinberuð nú fyrir helgina. Hinir eru Steven Gerrard og Daniel Sturridge, félagar hans í Liverpool, og þeir Yaya Touré hjá Manchester City, Eden Hazard hjá Chelsea og Adam Lallana hjá Southampton.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert