Poyet: Ótrúlegir fjórir dagar

Gus Poyet og Manuel Pellegrini á leik Sunderland og Manchester …
Gus Poyet og Manuel Pellegrini á leik Sunderland og Manchester City. AFP

Gustavo Poyet, knattspyrnustjóri Sunderland, segir að um miðjan síðasta miðvikudag hafi lið sitt virst dauðadæmt á botni ensku úrvalsdeildarinnar en nú sé staðan skyndilega orðin sú að það væri mikil synd ef það héldi sér ekki uppi.

Sunderland átti fyrir höndum vonlítið verkefni, að því er virtist, þegar liðið sótti fyrst  Manchester City heim á miðvikudagskvöldið og síðan Chelsea í gær. En liðið uppskar fjögur stig, fékk á sig jöfnunarmark gegn City í uppbótartíma, 2:2, á Etihad-leikvanginum og lagði svo Chelsea á Stamford Bridge í gær, 2:1, og varð fyrst liða til að fagna sigri þar í deildaleik gegn José Mourinho.

Sunderland er enn í neðsta sætinu en er nú með 29 stig gegn 30 hjá Fulham og Cardiff og 32 hjá Norwich, og á leik til góða. Þar að auki spilar liðið þrjá heimaleiki á lokasprettinum gegn liðum neðarlega í deildinni, Cardiff, WBA og Swansea, auk þess að sækja Manchester United heim.

„Við vorum dauðir og grafnir klukkan fimm á miðvikudaginn en nú yrði það mikil synd ef við héldum okkur ekki í deildinni. Um leið og ég sagði við mína menn að við þyrftum á kraftaverki að halda gerðist eitthvað. Leikmennirnir trúðu á þetta, við þurftum eitthvað alveg sérstakt, og nú hefur það gerst á síðustu fjórum dögum sem hafa verið ótrúlegir.

Ég trúi á mitt lið og veit hvað við getum gert. Eftir svona úrslit eru okkur allir vegir færir," sagði Poyet við BBC eftir sigurinn á Stamford Bridge og bætti við brosandi að landi sinn Luis Suárez ætti eflaust eftir að senda sér mörg þakkar-sms eftir þessi úrslit sem voru um leið vatn á myllu Liverpool í titilbaráttunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert