Chelsea ekki refsað þó margir verði hvíldir

Chelsea er í undanúrslitum Meistaradeildarinnar og í öðru sæti úrvalsdeildarinnar.
Chelsea er í undanúrslitum Meistaradeildarinnar og í öðru sæti úrvalsdeildarinnar. AFP

Chelsea þarf ekki að óttast refsingu frá stjórn ensku úrvalsdeildarinnar þó José Mourinho tefli fram hálfgerðu varaliði í leiknum gegn Liverpool á sunnudaginn, eins og hann hefur gefið í skyn að hann gæti gert.

Blackpool var refsað þegar Ian Holloway skipti nánast um lið fyrir leik í úrvalsdeildinni 2011 en síðan hefur verið slakað á reglunum. Á meðan Mourinho heldur sig að mestu við leikmenn sem eru í 25 manna úrvalsdeildarhópi hans verður ekkert aðhafst en Chelsea gæti hinsvegar fengið refsingu ef hann gripi til þess ráðs að sækja nokkra leikmenn í 21-árs liðs félagsins.

Ljóst er að Petr Cech og John Terry verða ekki með vegna meiðsla og Ramires gæti átt leikbann yfir höfði sér. Chelsea mætir Atlético Madríd í undanúrslitum Meistaradeildarinnar á miðvikudag og Mourinho hefur gefið í skyn að hann leggi meira uppúr þeim leik en leiknum við Liverpool sem er með fimm stiga forskot á Chelsea á toppi úrvalsdeildarinnar þegar þremur umferðum er ólokið.

Þó er talið fullvíst að þeir Frank Lampard og Mikel John Obi verði með gegn Liverpool þar sem þeir verða í leikbanni gegn Atlético, og einnig þeir Mohamed Salah og Nemanja Matic sem eru ekki gjaldgengir með liðinu í Meistaradeildinni.

BBC segir þó að enda þótt Chelsea verði án margra sterkra leikmanna á Anfield muni liðið samt væntanlega tefla fram dýrara byrjunarliði en Liverpool, ef horft sé á kaupverð leikmannanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert