Gylfi til liðs við Swansea

Gylfi Þór Sigurðsson
Gylfi Þór Sigurðsson Ljósmynd/spurs-web

Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, gekk í dag til liðs við velska félagið Swansea City sem kaupir hann af Tottenham fyrir 10 milljónir punda, að því talið er. Velska félagið staðfesti þetta á heimasíðu sinni nú rétt í þessu og segir Gylfa hafa skrifað undir fjögurra ára samning.

Gylfi snýr því aftur á fornar slóðir en hann lék sem lánsmaður með Swansea frá ársbyrjun 2012 til vors og átti þá góðu gengi að fagna en hann lék þá 18 leiki með liðinu í ensku úrvalsdeildinni og skoraði 7 mörk.

Tottenham keypti Gylfa þá um sumarið af Hoffenheim í Þýskalandi fyrir 8 milljónir punda. Hann spilaði 58 leiki með Tottenham í úrvalsdeildinni og skoraði 8 mörk, fimm þeirra síðasta vetur, en samtals lék Gylfi 85 mótsleiki og skoraði 13 mörk fyrir Lundúnafélagið á þessum tveimur árum.

Swansea hafnaði í 12. sæti úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili en hafði endað í níunda og ellefta sæti árin þar á undan. Félagið er að hefja sitt fjórða tímabil í deildinni og Gylfi er fimmti leikmaðurinn sem gengur til liðs við það í sumar.

Gylfi kom fyrst til Englands 16 ára gamall og var til 2010 í röðum Reading sem seldi hann til Hoffenheim í Þýskalandi sumarið 2010. Þar lék hann í hálft annað ár þar til þýska félagið lánaði hann til Swansea í ársbyrjun 2012.

Gylfi er 24 ára gamall, hefur leikið 24 landsleiki fyrir Íslands hönd og skorað í þeim 5 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert